Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Gullkorn frá guðföður grínsins

grouchomarxs

Sem inngang í vikuna þá hef ég tekið mig til og snarað fyrir ykkur á okkar ylhýra nokkrum gullkornum frá Groucho Marx, manninum sem veitti grínurum á borð við Woody Allen innblástur.

  • Aldur er ekkert merkilegur. Allir geta orðið gamlir. Það eina sem þú þarft að gera er að lifa nógu lengi.
  • Skál fyrir eiginkonum okkar og kærustum... vonandi hittast þær aldrei.
  • Sendu 24 rósir upp á herbergi númer 424 og skrifaðu: 'Emilía, ég elska þig' á bakhlið reikningsins.
  • Ég gleymi aldrei andliti - en í þínu tilviki ætla ég að gera undantekningu.
  • Þeir sem segist sjá í gegnum konur eru að missa af miklu.
  • Ef þú vilt komast að því hvort að maður sé heiðarlegur, spurðu hann. Ef hann svarar játandi þá veistu að hann er óheiðarlegur.
  • Sjónvarp hefur mikið menntunargildi fyrir mig. Þegar það er kveikt á því, þá fer ég yfir í næsta herbergi og les bók.
  • Þetta eru mín prinsip! Ef þér líkar ekki við þau, þá á ég önnur.
  • Hún hefur útlitið frá föður sínum. Hann er lýtalæknir.
  • Fimm ára barn skilur þetta! Sækið fimm ára barn strax!
  • Hjónaband er helsta orsök skilnaða.
  • Ég gleymi ekki fyrstu kynlífsreynslu minni - ég geymi kvittunina.
  • Mér líður ekki vel - hringdu á næsta golfvöll eftir lækni.
  • Í Hollywood heldur brúðurinn vendinum en losar sig við brúðgumann.
  • Maður ræður ekki örlögum sínum. Konan manns gerir það.
  • Næst þegar ég sé þig, minntu mig á að tala ekki við þig.
  • Hverjum ætlarðu að trúa, mér eða þínum eigin augum?
  • Í gærkvöldi skaut ég fíl í náttfötunum mínum. Hvernig hann komst í náttfötin mín hef ég ekki hugmynd um.

Staða og horfur fram að kosningum

ad_117_1365

Sá ágæti maður, Ólafur Þ. Harðarson, sagði eitt sinn við mig á göngunum í Odda: "Þegar maður lærir stjórnmálafræði, fer manni smám saman að þykja vænt um alla flokka." Svei mér þá, ef það er ekki eitthvað að marka þetta.

  • Framsóknarflokkurinn á hrós skilið enda hafa flokksmenn unnið hart að því að undanförnu að bæta ímynd flokksins. Mál Jónínu Bjartmarz hlýtur hinsvegar - og ætti - að kalla fram óbragð í munni kjósenda.
  • Ég tek undir það sem Andrés Magnússon sagði fyrr í kvöld að ef kosningarnar koma til með að snúast um hæfni Geirs H. Haarde að leiða þjóðina, þá eru það góðar fréttir fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Stjórnarandstaðan er ekki öfundsverð að þurfa að glíma við Geir og Þorgerði Katrínu.
  • Frjálslyndi flokkurinn hagnast á því að kjósendur eru orðnir þreyttir á því að hlusta á gagnrýni á stefnu flokksins í málefnum nýbúa. Gagnrýnin kom í raun á besta tíma fyrir flokkinn. Hann á bara eftir að sækja í sig veðrið fram að kosningum. Gleymum því heldur ekki að í kjörklefanum þurfa menn ekki að svara fyrir fordóma sína, þetta er leynileg kosning.
  • Ómar Ragnarsson er því miður á góðri leið með að eyðileggja Íslandshreyfinguna. Ómar kemur fram í fjölmiðlum sem hugsjónarmaður án jarðtengingar. Engum er illa við Ómar, en kjósendur virðast ekki ná að sjá hann fyrir sér sem stjórnmálaleiðtoga.
  • Samfylkingin náði að tryggja sér meira fylgi en henni bar í raun með hræðsluáróðri við síðustu kosningar. Innanbúðarvandamál hafa síðan komið í veg fyrir að fastafylgi flokksins hafi fylgt því eftir. Ingibjörgu Sólrúnu verður ekki stætt á að sitja mikið lengur eftir þessar kosningar. Hennar tími er einfaldlega liðinn.
  • Það hefur verið magnað að fylgjast með uppgangi Vinstri grænna. Flokkurinn hefur nú fengið til baka það fylgi sem Samfylkingin stal af honum við síðustu kosningar og meira til. Vandinn er að flokkurinn mælist stærri en innviðirnir þola. Róttækni og breiðfylking fer einfaldlega ekki saman.
  • Baráttusamtökin hafa náð þeim árangri sem þau geta vonast eftir. Hinir flokkarnir hafa þegar ættleitt þann hluta málefnapakkans sem þeir treysta sér til að taka. Samtökin snúast nú aðeins um persónulegan metnað einstaklinga, sem enginn þekkir hvort sem er.

 


mbl.is Fylgi Samfylkingar og VG jafnmikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimm leiðir til að gera betri kaup

bonus_logo

Þetta er vefur sem gefur. Innblásinn af Jóhannesi Gunnarssyni frekar en Jóhannesi Jónssyni, hef ég tekið saman nokkur ráð sem er gott að hafa í huga, næst þegar farið er að versla. 

  1. Láttu ekki körfuna stjórna þér
    Þótt þig vanti kannski bara einn hlut þá kallar karfan á fleiri. Ílát eru gerð til að fylla. Það er ekki að ástæðulausu að verslanir fjárfesta í körfum og kerrum fyrir viðskiptavini sína.
  2. Ekki versla svangur eða svöng
    Svengd hefur áhrif á dómgreindina. Þú ert líklegri til að gera góð kaup á fullum maga.
  3. Námundaðu upp
    Kr. 3.990 eru ekki þrjú þúsund og eitthvað, heldur tæplega fjögur þúsund. Keyptu á réttum forsendum.
  4. Ásett verð er hámarksverð
    Þetta á sérstaklega við stærri hluti, svo sem fasteignir og bifreiðar. Það er þitt hlutverk að finna það verð sem seljandinn er tilbúinn til að sætta sig við. Allt umfram það er á þinn kostnað.
  5. Gerðu innkaupalista
    Það er ágæt leið til að brynja sig gagnvart lymskulegri sölutækni seljenda.

Kristni fyrir leikmenn

Christ

Kristni er sú trú að 2000 ára gamall uppvakningur, og fyrrverandi trésmiður, sem er jafnframt faðir sinn, veiti þeim eilíft líf, sem með táknrænum hætti, borði af líkama hans og sverji honum hollustu, til að hann aflétti bölvun, sem er komin til vegna þess að talandi snákur sannfærði konu, sem varð til úr rifbeini, um að borða ávöxt.

Gefnar hafa verið út bækur, kvikmyndir - og meira að segja söngleikur - um ævi þessa tvímælalaust frægasta trésmiðs heims. Þeir sem eldri eru muna síðan eflaust eftir bókaflokknum, Biblíunni, sem greinir frá ævintýrum kappans og naut töluverðra vinsælda á sínum tíma.


Til hamingju Unitedmenn!

Þrátt fyrir að vera einarður stuðningsmaður Liverpool, þá ber ég virðingu fyrir góðum fótbolta, sama hvaðan hann kemur. United spilar skemmtilegan bolta og baráttugleði liðsins er aðdáunarverð. Mikilvægir leikir ráðast hinsvegar furðu oft af því hvort að Rooney er í stuði, og það var hann svo sannarlega í kvöld! Seinni leikur liðanna á San Siro er leikur sem maður má helst ekki missa af.


mbl.is Rooney tryggði Manchester United sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í slagtogi með Bin Laden

Bin Laden með Arsenal merkið

Það hlýtur að teljast nokkurt vatn á myllu breskra lýðveldissinna, að það sé komið í ljós að sjálf drottningin sé í slagtogi með hryðjuverkaforkólfinum Osama Bin Laden, þegar kemur að knattspyrnunni (skemmtileg grein um það mál hér). Ég vona bara að hún hafi fundið heilbrigðari útrás fyrir pirringinn, sem óhjákvæmilega fylgir því að halda með þessu lánlausa Lundúnarliði.


mbl.is Drottningin heldur með Arsenal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvílíkt lýðskrum

Ástæða þess að Sarkozy nýtur meira fylgis en Royal er einföld. Meirihluti Frakka lét ekki ginnast af innstæðulausum loforðum hinnar síðarnefndu. Nú á að reyna að brúa bilið með slagorðaflaum. Í stað þess að bjóða upp á raunhæfar lausnir á þeim vandamálum sem Frakkar glíma við fer hún þá ódýru leið að reyna að telja kjósendum trú um að þarna takist á gott og illt, beitir vopnum sem ég var að vona að hefðu verið grafin í lok kaldastríðsins.

Tengt þessu þá þykir mér alltaf jafn sárt þegar ég verð vitni að umburðarleysi þeirra sem gefa sig út fyrir að vera málsvarar réttlætis og manngildis gagnvart þeim sem leyfa sér að efast um þær leiðir sem þeir stinga upp á. Því miður á það við alltof marga í pólitíkinni, jafnt hér heima sem úti í hinum stóra heim. Ég beini þessu til allra sem telja sig betri en samferðarmenn sína, sama hvar í flokki þeir standa.


mbl.is Royal hvetur andstæðinga peningahyggjunnar til að sameinast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samanburður á stefnuskrám flokkanna

Helstu niðurstöður úr ítarlegum samanburði mínum á stefnuskrám flokkanna:

  • Stefnuskrá Samfylkingarinnar bragðaðist best. Pappírinn leystist fljótt og vel upp og skráin rann ljúflega niður. Mér er hinsvegar hálfbumbult.
  • Stefnuskrá Framsóknarflokksins var prentuð á dýrasta pappírinn.
  • Íslandshreyfingin prentaði ein flokka á endurunninn pappír.
  • Stefnuskrá Vinstri-grænna var erfið aflestrar. Rautt letur á grænum grunni er afleitt, sérstaklega fyrir lesblinda.
  • Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins stóð sig best á skutluprófinu. Hún flaug lengst.
  • Stefnuskrá Fjálslynda flokksins var ódýrust, enda prentuð í Póllandi.

mbl.is Stefnuskrár flokkanna bornar saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt aðeins forsmekkurinn

Big brother

Það er fyrirséð að þessi hugmynd verði að veruleika. Í fyrsta lagi er þetta tæknilega mögulegt. Í öðru lagi er eftirspurn eftir þessari þjónustu, sem gerir hana hagrænt fýsilega. Áhyggjufullir aðstandendur sjá til þess. Að lokum er andlega vanheilt fólk í engri aðstöðu til að mótmæla þessu.

Það kemur mér hinsvegar á óvart að enginn hafi enn séð sér hag í því að bjóða foreldrum sambærilega þjónustu. Ég þykist nokkuð viss um að það sé bara spurning um tíma hvenær börn verða merkt með þessum hætti. Hver vill ekki vita hvar barnið sitt er þegar níðingar leynast í hverju skoti?

Þegar sú kynslóð vex úr grasi þarf síðan ekki nema hryðjuverk á borð við 9/11 til að krafan komi loks fram að allir verði merktir - til að tryggja eigið öryggi og þjóðarinnar.

Förum vel með frelsið til að forða því að heimurinn verði svona.


mbl.is Rafræn merking eldra fólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú byrjar ballið

kotturspilar

Þangað til að andgiftin kemur yfir mig mun kötturinn hér til hliðar spila fyrir dansi. Góðar stundir. Það er greitt við útganginn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband